Merkilegt að glugga í andsvörum þeirra Ingibjargar og Davíðs. Sýnir líka muninn á þessum tveim einstaklingum. Fimmtíu og eitthvað síður hjá Davíð af skítkasti og lítið um varnir. Allt annar handleggur hjá Ingibjörgu, vel unnið varnarplagg, hún sannfærir mann ekki alltaf um aðgerðir sínar, en oft tekst henni það. Auk þess sem viðaukar hennar sem margir hverjir eru handskrifaðir og maður sér hennar áherslur á þessum fundum sem hún vísar til og svarar fyrir og eiga eftir að vekja gleði sagnfræðinga. Hérna er skýrslan: http://rna.althingi.is/ Hér eru athugasemdir þeirra: http://rna.althingi.is/athugasemdir.htm Ingibjörgu tekst þó ekki að sannfæra neinn um yfirgengilegt skeitingarleysi gagnvart viskiptaráðherra sínum það er hennar stóri akkillesarhæll, auk þess sem þegar kemur fram á vor 2008 af hverju heimtaði Samfylkingin ekki aðgerðir strax? Davíð afturámóti þarf við hvert fótmál að setja ofan í við nefndina fyrir störf hennar og áherslur sem ég hélt að ALþingi hefði sett. Ég tek hérna handahófskennt dæmi af blaðsíðu 16.
Áður en vikið verður að einstökum tölusettum köflum í bréfi nefndarinnar, sem formaður hennar
afhenti mér óvænt að kvöldi 8. febrúar s.l., verður ekki komist hjá því að gera alvarlegar
athugasemdir við tilgreindar forsendur þess, sem nefndin kveðst vera með til athugunar hvort
flokka megi undir mistök eða vanrækslu mína og þá væntanlega félaga minna í bankastjórn
Seðlabanka Íslands, en eins og kunnugt er ræður þar afl atkvæða öllum ákvörðunum og hver
bankastjóranna þriggja hefur aðeins eitt atkvæði. Í mörgum af þeim tilfellum, sem sögð eru vera
„til athugunar“, er með orðalagi og rökstuðningi óbeint gefið til kynna að nefndinni sé ekki ljós
lagaleg staða Seðlabanka Íslands annars vegar og Fjármálaeftirlitsins hins vegar, og að nefndin
sé að athuga hvort bankastjórninni kunni að hafa orðið alvarlega á varðandi atriði, sem
ágreiningur ætti ekki að vera uppi um við kunnáttumenn að voru hreint ekki á valdsviði hennar.
Þegar hins vegar leikmenn kunna að lesa spurningar eða athugasemdir nefndarinnar síðar meir,
eiga þeir á hættu að fá þá mynd, að Seðlabankanum hafi verið ætlað allt annað og meira
eftirlitshlutverk en lög mæltu í raun fyrir um og hafi enn haft vald sem löggjafinn hafði þó
beinlínis fært frá honum með skýrum og afgerandi hætti. Þessar lagaforsendur hef ég þegar
reifað og hlýt að nefna víða í athugasemdum mínum, því þessi ótrúverðuga og ómálefnalega
framsetning gerir andmælanda iðulega mjög örðugt að svara einstökum atriðum. Megin hlutverk
nefndarinnar er að leita sannleikans. Vera má að nefndin finni hann ekki allan, en hún þarf að
leita hans fordómalaust og án fyrirfram gefinnar niðurstöðu.Og það gengur einnig þvert á
lagafyrirmæli ef nefndin sjálf afbakar sannleikann, fyrir gáleysi eða mistök. Virðist nefndin
þannig alls ekki hafa hliðsjón af hinni almennu lögmætisreglu, sem kveður á um (í tilfelli
Seðlabankans) að bankinn, og þar með bankastjórnin, hvorki á né má fara út fyrir valdsvið sitt
að lögum, og vísast um það til umfjöllunar í síðasta kafla. Þær ábendingar umboðsmanns
Alþingis um lögmætisreglu og nauðsyn þess að hvert stjórnvald virði til fulls mærin við annað,
sem þar voru raktar, eru réttar og í samræmi við vandaða stjórnsýslu. Seðlabanka Íslands bar
sérstaklega að gæta þess að halda sig örugglega innan valdheimilda sinna og þá einnig gagnvart
öðrum stofnunum á sama sviði, ekki síst Fjármálaeftirlitinu. Þetta verða menn að hafa í huga
þegar horft er til baka.
Þarna talar maður sem veit um flest meira en nefndarmenn Rannsóknarnefndarinnar. Og það vitum við öll sem höfum fylgst með ferli Davíðs Oddssonar.