Andlitið: Andlit gossins, andlit okkar?

Andlit eldgossins

Sjáið þessa einstöku mynd sem flugvél Landhelgisgæslunnar tók af gosgígunum, kötlunum í gær.

Á þessum tímum sem við lifum, þessum tímum sem okkur hefði ekki órað fyrir að við mundum upplifa, þótt að við þekktum vel sögu landsins okkar og jarðarinnar. Þá er það þannig að allt verður táknrænt.  Þetta andlit minnir okkur á allt það sem við höfum gengið í gegnum seinustu mánuði og ár.

Andlit reiðinnar, sorgarinnar, sárindanna og vantrúarinnar.  Þegar allt sem við höfum trúað á um mannskepnuna er einskis virði.  Við höfum haft í kringum okkur galhoppandi brjálæðinga sem ryksuguðu fjármunum út úr bönkum okkar, sem töldu sig hafna yfir öll lögmál.  Seinast í morgun var ég að lesa um bankann minn, þar sem Bakka(varar)bræður hirtu seinustu mánuðina ógrynni fjár, án þess að þurfa að hugsa um veð eða endurgreiðslur.  Ekki veit ég um vaxtastigið sem þeir þurftu að borga af þessu enda skiptir það engu máli. Þeir borga ekkert.

Svona hegðaði sér stór hópur manna, flestir karlar, með fulltingi og sofandahætti stjórnmála- og stofnanakerfisins.  Svo koma þeir og biðja um afsökun og fyrirgefningu.  Það er ekkert á mínu færi að veita fyrirgefningu, þeir eru heldur ekki margir sem gengu fyrir rannsóknarrétt sem töldu sig bera ábyrgð,  var það nokkur í stjórnkerfinu.  Ég veit ekki hvað þeir segja sem ganga fyrir sérstakan saksóknara.  Það eina sem þessir aðilar eiga að gera er að láta sig hverfa úr peningaheiminum og fara að gera eitthvað allt annað.  Ég var til dæmis hrifinn af konu einni í blöðunum í fyrra sem sneri sér að einkaþjálfun í staðinn fyrir ávöxtun fjármuna.  Það er stór hluti af þjóðinni sem fær nokkurs konar klígju að sjá þetta fólk eða heyra í því.  Það breytist ekki næstu árin. 

Svo þetta andlit eldgossins verður um leið andlit okkar, kannski er náttúran að refsa okkur fyrir allt kæruleysið sem mörg okkar hafa sýnt í umgengni sinni við landið, náttúruna, jörðina og okkur sjálf.  Við stundum afneitun, það er einhverjum öðrum að kenna hvernig komið er fyrir jörðinni, einhverjir aðrir eiga að breyta sér, ekki við sjálf, og sama gildir um þetta litla þjóðfélag okkar þar sem allt er komið í hnút af okkar eigin völdum. 

Þess vegna er þetta andlit eldgossins líka andlit okkar.