Íslenskir fjölmiðlar eiga bágt

Íslenskir fjölmiðlar eiga bágt.

Hvernig eiga þeir að bregðast við á hverjum degi öllu því sem gerist og þarf að fjalla um?

Í augnablikinu sýnist mér það vera litli bróðir eða systir sem geri það best, þá á ég við DV. 

Hann fjallar um glæpamennina i kringum okkur sem eru svo margir og ennþá eru þeir alls staðar.

Í bönkunum, á Alþingi, í stofnunum, í fyrirtækjum.  Allir kúlulánaþegarnir sem vour bundnir við banka með kúlu og hlekkjum.  Og fá að starfa áfram þar eins og ekkert hafi í skorist. Allir Caymaneyjalífeyrisþegarnir í feluleiknum eilífa.  Gamlir eigendur sem eiga ekki að vera til staðar en eru það samt.  Allir alþingismennirnir og stofnanayfirmennirnir sem litu til hliðar þegar eitthvað bjátaði á.

Stærsta áskriftarblað landsins er í þannig stöðu að aðalritstjórinn þarf að láta sig hverfa úr landi þar sem hann er einn höfuðsakborgningur hrunsins.  Maður hefði haldið að stærsta blaðið hefði þurft að hafa ritstjóra í starfi til að fjalla um höfuðviðburð ársins.  Útgáfu skýrslunnar.

Stærsta auglýsingablaðið á allt sitt undir auglýsingamarkaði sem er í höndum aðaleiganda blaðsins sem er aðalsakborningur Hrunsins. Þar að auki lifir það á þráhyggju Evrópusambandsaðildar sem á sér enga vona næstu, hvað á ég að segja, fimm ára, tíu ára. 

Sjónvarpsfjölmiðlarnir, æ maður er orðinn eitthvað þreyttur á þessum endalausu viðtölum. En Rúv sýndi óhemju snerpu í vikunni með Írakmorðin svo kannski eigum við vona á beittari fréttamennsku? Eina jafngóða í mínum augum er Spegillinn með stjörnufréttaritarann Sigrúnu Davíðsdóttur sem hefur skákað öllum seinustu mánuðina.

Svo fréttamiðlar eiga bágt, við stöðugt færri starfsmenn sem þurfa að vinna meiri vinnu. Með eigendur sína kíkjandi yfir öxlina.